miðvikudagur, nóvember 30, 2011

Schnitzeldoodle

Ég elska mat og ég elska að borða. Eitt af því sem ég elska hvað mest er brauð. Brauð brauð brauð. Þótt ég elski brauð mjög mikið þá reyni ég nú að láta 2ja brauðsneiðnaskammtinn duga per dag því það er jú ekki hollt að gúffa í sig brauðmeti allan liðlangan daginn (vildi að það væri það samt).

Í tilefni af því að ég elska brauð ætla ég að koma með nokkrar geðveikar samloku- og brauðsneiðauppskriftir sem ég mæli með að allir prófi.

-Draumabrauð Sunnu: Þessa uppskrift fékk ég frá Sunnu vinkonu minni en það voru ófá skiptin sem við fengum okkur Draumabrauð í Eyrarveginum.

Vanalega tek ég tvær brauðsneiðar í þetta. Ég smyr sneiðarnar með Hunt's tómatsósu (því hún er best), set ofan á það 2-3 stórar ostsneiðar og bomba síðan Season All kryddi yfir. Þar sem Season All er ekki til lengur, því miður, þá notið þið bara eitthvað annað sniðugt krydd eins og t.d. Kjúklingakryddið frá Prima.

-Brauð á la Hólmgeir, a.k.a. Holli Hommahúss: Þessi brauðsnilld var fundin upp af Hólmgeiri, vinar bróður míns, en þeir hafa verið að smyrja sér svona brauð síðan þeir voru í leikskóla.

Ég nota 1-2 brauðsneiðar í þetta, fer eftir hve brauðhungruð ég er. Ég smyr sneiðina með sætri sinnepssósu (söd fransk sennep) og Hunt's tómatsósu. Ofaná þetta set ég slatta af steiktum lauk og þarnæst 2-3 ostsneiðar (jafnvel fjórar). Svo krydda ég þetta með einhverju frábæru kryddi (sem var nú alltaf Season All, en jæja).

-Vinnusamlokan: Þessa samloku þróaði hún mamma í gegnum árin en þetta er samloka sem mamma smurði alltaf fyrir pabba sem nesti í vinnuna. Þetta er uppáhalds samlokan mín og ég tek svona oft með mér í vinnuna sjálf (mamma nennir þó ekki að smyrja fyrir mig, því miður).

Þar sem þetta er samloka þá nota ég 2 brauðsneiðar. Á samlokuna bombum við skinkusneið, 2-3 sneiðum af osti (26% gouda er bestur), vel af káli, gúrkum og papriku (helst rauðri því hún er frábærust). Það er gott að setja vel af grænmeti því þá verður samlokan svo ótrúlega fersk, góð og "hollari" en margar aðrar lokur. Ekki má svo gleyma le special ingredient sem er auðvitað E. Finnsson pítusósan.

-Spaghettíbrauð: Ég og bróðir minn eigum heiðurinn af þessari en til að útbúa þetta gotterí, þá þurfið þið að eiga spaghettí afganga.

Það sem þarf er ein brauðsneið og spaghettí afgangar sem þið hlammið ofaná sneiðina - gott finnst mér að bæta smá tómatsósu yfir því ég elska tómatsósu. Yfir þessa klessu setjið þið auðvitað vel af osti, alveg 3 flottar ostsneiðar. Krydda svo í lokin. Þetta er miklu betra en það hljómar, trúið mér.


-Roastbeef sneið: Það þekkja nú allir þessa sneið en hún er bara svo frábær að ég ákvað að skella henni hér inn.

Í þetta nota ég brauðsneið og helst folalda- eða nautakjötsafganga sem ég sker í þunnar ræmur. Brauðið smyr ég með remúlaði, hrúga ofan á það steiktum lauk og þar næst kjötræmunum. Þeir sem vilja geta bætt sýrðum gúrkum en mér finnst þær eiginlega ómissandi.

-Langömmuschnitzelbrauð: Þessa brauðuppskrift gerði víst langamma alltaf og mamma lærði það af henni.

Í þetta nota ég afganga af schnitzeli sem ég sker í þunnar ræmur. Smyr brauðsneið með smjöri, set svo rabbabarasultu, steiktan lauk og kjötræmurnar. Ofan á þetta set ég svo gúrkusneiðar.
Þetta er alveg lúmskt gott schnitzeldoodle.

-Búrfellsbrauð: Þetta gerðum við krakkarnir svo oft þegar við vorum í sveitinni (Búrfell), á kvöldin þegar búið var að mjólka.

Ég smyr pítusósu á brauðsneið og hlamma ofaná það spægipylsu eða salami og ofaná það 3-4 sneiðar af osti. Þetta bomba ég svo inn í örbylgjuofn þar til le cheese bráðnar. Þetta var sko gúrmé máltíð á kvöldin í sveitinni.

En þá segi ég þetta gott í bili. Ef þið eruð með einhverjar awesome brauð/samloku uppskriftir endilega smellið þeim í komment kassann. Ég er alltaf til í að prófa einhverjar nýjar brauðlegheit.

Takk fyrir að lesa fallega fólk!

|