laugardagur, maí 07, 2011

Lokaspretturinn

Í dag lá ég í prófalestri. Það finnst mér ekki gaman. Ég er líka mjög stressuð fyrir prófunum sem eru á þriðjudaginn og miðvikudaginn. Hvað ef ég myndi falla, þá fengi ég ekki námslánin og væri í djúpum lambaspörðum. En ég er ekkert að fara að falla, það er bara ekki inni í myndinni. Ég geri mitt besta og það verður einfaldlega að duga.

Ég tók pásu frá próflestri í dag og fór á Subway og í bíó með Ösp, á þrumuguðinn Þór. Hún var frekar awesome fyrir utan einn eða tvo kjánabrandara. Þegar myndin var búin og við löbbuðum út, tók við okkur hellidemba, þrumur og eldingar. Mér fannst það mjög viðeigandi og skemmtileg tilviljun. Ég kvaddi Ösp og rölti heim. Á heimleiðinni sá ég ref á vappinu og ákvað að hlaupa á eftir honum. Hann var fljótari en ég svo ég hætti að hlaupa og horfði á þrumurnar og lét rigninguna gegnbleyta mig.

Þessi vetur er að verða búinn. Ég ætlaði að vera dugleg að drita inn færslum hér en það varð víst ekkert úr því. Þegar ég horfi tilbaka þá finnst mér vera meira af neikvæðum heldur en jákvæðum athugasemdum við þennan vetur. Ég vona bara að eftir nokkra mánuði, þegar ég er komin burt úr þessari borg að ég geti horft tilbaka, brosið og verið stolt af sjálfri mér.

Dublin er ágætis borg. En ég gæti aldrei fyrir mitt litla líf búið hérna til lengdar. Ef ég ætti að búa á Írlandi þá myndi það þurfa að vera einhvers staðar í litlum, rólegum bæ útí sveit. Borgarbrjálæði er bara eitthvað sem fer ekki vel í mig. Óhuggnalegt og vont fólk útum allt, fátæktin, dópistarnir, umferðin, þjónustan.

Get ekki hætt að spá hvernig þessi vetur hefði verið ef ég hefði farið suður og lært snyrtifræðina þar. Þá hefði ég kannski ekki veikst svona oft. Ég ætti kannski meiri pening. Hefði fengið að sjá fjölskyldu mína og kærasta oftar. Hefði kannski ekki gengið jafn vel í skóla. Hefði ekki betrumbætt mig í ensku. Ég hefði aldrei verið einmanna því ég hefði haft svo marga vini í kringum mig og fjölskyldan væri alltaf í 5 klst fjarlægð ... já, allt hefur sína kosti og galla.

Ég vildi að ég gæti sagt að þetta sé búið að vera einn skemmtilegasti vetur sem ég hef upplifað, en sú er því miður alls ekki raunin. Ég hef aldrei á ævinni verið jafn einmanna. En það er kannski gott að ég hafi gengið í gegnum þetta allt og fengið að kynnast því hvernig það er að vera einn og þurfa að bjarga sér. En einmannaleiki er eitthvað sem enginn á að þurfa að ganga í gegnum til lengdar.

Þetta er niðurdrepandi færsla, sem skiptir svosum ekki máli þar sem enginn les þetta.

|