laugardagur, desember 31, 2005

2005: A Space Oddity

Ætli ég neyðist ekki til að skrifa einhverja lokafærslu á árinu 2005. Hefði átt að undirbúa einhvern heavy pistil fyrir daginn í dag en nei...ég er löt. Þegar ég skrifa þessa svokölluðu lokafærslu er ég að hlusta á Sigur Rós tónleikana (sem áttu sér stað í Laugardagshöllinni þann 27. nóvember) í útvarpinu. Ef ég fer fram í eldhús þá get ég hlustað á tónleikana þar í litla þráðlausa útvarpinu okkar. Sigur Rós hljómar útum allt heimilið.

Tvöþúsundogsex, ég held ég hafi bara 3 markmið fyrir það ár... 1. Læra betur 2. Eyða meiri tíma með fjölskyldunni (hef svo sannarlega vanrækt þessar örfáu quality stundir með fjölskyldunni) 3. Koma mér í betra form og vera jákvæðari.
2005 var óneitanlega atburðarríkt og skemmtilegt ár en ég tel það fullvíst að næsta ár verði enn betra.

Ég og mamma vorum að spjalla fyrir stuttu um hin ýmsu tímabil. Amma mín var uppi á rokk/hippatímabilinu, mamma var uppi á diskótímabilinu, elsti bróðir minn á pönktímabilinu...en þá kom upp mikil hugleiðing. Á hvaða tímabili erum ég og Hallur? Eftir að hafa lagt höfuðið í bleyti kom mamma með ágætis nafn fyrir þetta tímabil sem ég er uppi á: Endurvakningartímabilið. Nútíminn hefur fengið mikinn innblástur fyrir tísku, útlit og tónlist frá gömlum tímabilum: Sítt skítugt hár, AC/DC, Guns n' Roses, hljómsveitabolir (Pönktímabilið). Spútnik föt (fataskápurinn hennar ömmu. Frá hinum ýmsu tímabilum held ég). Gulrótabuxur og prjónaðar mynstur peysur (80's strákaklæðnaður. Flokkast jú eiginlega undir Spútnik fatnaði). Lopaklæðnaður (gömlu dagarnir).
Endurvakningartímabilið. Vel valið orð hjá móður minni.

Ungarnir stækka með degi hverjum og gvöð hvað þeir eru sætir. Hissi, Nói Albinói, Lilli (enn týpískt) og þar sem ég hef ekki fundið nafn á þann næstminnsta kalla ég hann bara Næstminnsti.

En þá er tími til kominn að kveðja...með sleftauma niður á höku og hávært garnagaul því ilmurinn úr eldhúsinu er svo lokkandi. Hárið mitt er eins og úfinn hænurass í vindi og verð að gera eitthvað í því fyrir seinustu máltíðina.

Gleðilegt nýtt ár og þakka liðið!

|

miðvikudagur, desember 28, 2005

Zero hour nine a.m.

Múrveggurinn er að baki mér. Á ný get ég valhoppað um engi græn þar sem sóleyjar og baldursbrár blómstra.

Ég hef ekki enn hafið námslestur en stefni á það að komast yfir 'Fornöld að fornu og nýju' og helminginn af 'Menning miðalda' fyrir kvöldmatartíma. Ef ég ætti að vera raunsæ þá sofna ég að öllum líkindum eftir 5. spurningu og vakna um kvöldmatarleyti...

Þetta eru búin að vera hin ágætustu jól og vonandi áttu allir gleðilegar stundir yfir hátíðina. Gangið hægt um gleðinnar dyr er nýja árið brestur á.

Námshestur. Nei. Stutt og tilgangslaus færsla. Já.

|

sunnudagur, desember 25, 2005

Jóladagur

Sjaldan hef ég verið jafn södd og ég var í gærkvöldi eftir kvöldmat. Ég fann vel fyrir seddu en samt hélt ég áfram að borða. Við fáum jú bara rjúpur einu sinni á ári og þá á maður að éta þangað til maður verður veikur. Bongó góð aðfangadagsmáltíð!

Gjafirnar komu mér á óvart og ég var himinánægð með þær. Myndavél (ekki B-vara), græjur í bílinn (Jéss, Ójéss!), peningur fyrir flíkum, lúxus náttsloppur og margt fleira. Það var einnig afskaplega skemmtilegt að fá alveg ellefu jólakort...vanalega fæ ég bara tvö: Eitt frá bankanum og eitt vorkunnarkort frá mömmu.

Kvikmyndaspilið er ekki eins slæmt og ég hafði búist við. Allavega spiluðum ég, Hallur, Grétar og mamma (súkkat) spilið fram eftir nóttu. Mætti vera meira um venjulegar spurningar í þessu spili en þrátt fyri það bara prýðisgóð skemmtun.

Fór í göngutúr áðan eða öllu fremur spretttúr. Pylsuhundur/langhundur bróður míns, Húgó, hann er sprettharðari en ég. Ég hljóp eins hratt og ég gat en hundurinn úthlaupaði mig. Úthlaupa er ekki orð en mér er sama. Þó svo að ég hafi verið burstuð af smávöxnum hundi með litlar fætur þá var þessi göngutúr afar gamansamur. Eltingarleikurinn hélt svo áfram útum allt heimilið sem endaði með því að Húgó flæktist í jólatrénu. Elska þennan hund.

Vona að allir hafi átt ánægjulegt aðfangadagskvöld. Gleðileg jól.

|

laugardagur, desember 24, 2005

Christmas Vacation

Aðfangadagur. Ekki enn komin í jólaskapið, það þykir mér mjög leiðinlegt. Ég stóla samt sem áður á það að jólasturtan, rjúpnalyktin og Christmas Vacation vekji einhverjar jólatilfinningar. Christmas Vacation er náttúrlega Aðal jólamyndin sem nauðsynlegt er að horfa á um jólatíðina. Ég er forvitin...Hve margir hafa séð einhverja Vacation mynd og hvað finnst ykkur um þær myndir og aðalleikarann Chevy Chase (í hlutverki Clark Griswold)?

Clark: "Hey. If any of you are looking for any last-minute gift ideas for me, I have one. I'd like Frank Shirley, my boss, right here tonight. I want him brought from his happy holiday slumber over there on Melody Lane with all the other rich people and I want him brought right here, with a big ribbon on his head, and I want to look him straight in the eye and I want to tell him what a cheap, lying, no-good, rotten, four-flushing, low-life, snake-licking, dirt-eating, inbred, overstuffed, ignorant, blood-sucking, dog-kissing, brainless, dickless, hopeless, heartless, fat-ass, bug-eyed, stiff-legged, spotty-lipped, worm-headed sack of monkey shit he is. Hallelujah. Holy shit. Where's the Tylenol?"

Bara góð mynd.

(Þorvaldur, ekkert persónulegt)

|

föstudagur, desember 23, 2005

Helosan

Helosan er klassíska húðkremið. Það er í blárri hundrað gramma túpu með hvítu loki. Helosan þrælvirkar, lyktar reyndar eins og tannkrem en ég er ekki frá því að þetta krem geri mér ekkert nema gott. Mæli með þessu kremi.

Ég elska ungana mína. Skemmtilegustu stundirnar á þessum dögum er þegar ég fæ að opna fuglahúsið og gefa þeim ungum sem þurfa á mat að halda að borða. Ég er ekki svo viss um að ég eigi eftir að geta selt þá. Eflaust mun ég heimta að eiga þá alla. Svo enda ég sem gömul piparmey með sex páfagauka. Reyndar hljómar það framtíðarplan nokkuð vel. Þeir gera mér allavega ekki mein nema að gogga í mig...stundum til blóðs. Það er ekki neitt.

Mig Langar Að Skera
Og Rista Sjálfan Mig Á Hol
En Þori Það Ekki

Sárþrái að horfa á þessa tónleika aftur.

|

fimmtudagur, desember 22, 2005

Spírulina

Hvað er Spírulina? : Lífrænt "fjölvítamín" sem virkar. Spírulina töflurnar eru örsmáir, blágrænir þörungar sem eru ræktaðir í ferskvatni.

Spírulina kemur jafnvægi á blóðsykurinn, við fáum betri einbeitingu, verðum hressari og síður ofvirk, pirruð eða ör, er því gott fyrir alla sem eru í námi og undir miklu álagi.

Spírulina er eina plantan sem inniheldur Glycogen-efnið, svo vitað sé, en það er frumuppspretta líkamans á skammtíma- og langtímaorku. Því meira Glycogen sem er til staðar í líkamanum þegar við stundum líkamsrækt, þeim mun betri verður árangurinn. Ef Spírulina er tekið inn hálftíma fyrir æfingar gefur það aukið þrek, úthald og styrk.

"Það sem ég elska mest við Lifestream Bioactive Spírulina er að ég finn ekki fyrir þreytu eða geðvonsku og er hætt að nöldra, þrátt fyrir mikla vinnu og álag. Ég er 36 ára og ég naga mig oft í handabakið fyrir að hafa ekki byrjað fyrr að nota Lifestream Bioactive Spírulina."
Joanne frá Queensland.

(Allt bein tilvitnun af þessari síðu)



Himnasending. Ég segi ekki annað.

|

miðvikudagur, desember 21, 2005

The Lion, The Witch and The Wardrobe

Ótrúlegt. Ég er byrjuð að lesa lestrarbók mér til skemmtunar. Jú mikið rétt, ekki skólabók heldur afþreyingarbók. Bókin er eftir C.S. Lewis og heitir Ljónið, Nornin og Skápurinn. Held að flestir kannist nú við þessa bók eða þá kvikmyndina sem er væntanleg í kvikmyndahúsum annan í jólum (The Chronicles of Narnia: The Lion, The Witch and The Wardrobe). Þessar fimmtíu blaðsíður sem ég er búin að lesa í dag eru mjög áhugaverðar og spennandi. Ég elska ævintýri. Vildi að ég gæti opnað minn eigin skáp, gengið inn í hann og komið inn í annan heim. Bara ef.

Fór á æfingu áðan og það kom mér á óvart hversu gaman það var. Tvöfaldur ístími og My Morning Jacket. Skemmtilegt nokk.
Maður þyrfti helst að troða inn skokki á dagskránna í jólafríinu, gengur ekki annað. Ha Erla, hvað segir þú um það? *illkvittnislegt glott*

3 dagar til jóla og ég á allt eftir ógert: Klára jólainnkaup, laga til, skreyta (það er ekki komin 1 sería upp í herbergið mitt, hvað þá jólaskraut af einhverjum toga), klára jólakort...jólafrí er ekkert frí.
...Þessar upptalningar á leiðinlegum hlutum hjá mér eru alltof dull, þeim verður að linna.

Haldið ykkur á fótunum gott fólk.

|

sunnudagur, desember 18, 2005

Phone Went West

Ég sit hérna og reyni að blogga eitthvað bara til að forðast það að þurfa að læra. Byrjaði svona 5 sinnum að skrifa eitthvað og ýtti á delete jafnóðum. Get eiginlega ekki hugsað um margt. Það eina sem ég hugsa um er My Morning Jacket. Einfaldlega get ég ekki hætt að hlusta á þá.

Ég fékk nýjar náttbuxur. Ákvað því að hætta að nota gömlu náttbuxurnar mínar þar sem þessar nýju voru mun betri. Svo kom í ljós að nýju náttbuxurnar voru ómögulegar þar sem skálmarnar voru of stuttar. Ég hætti að nota þær nýju og fór að nota gömlu aftur. Seinna lengdi mamma buxnaskálmirnar. Ég fór að nota nýju buxurnar aftur fyrst þær voru lagaðar. Fínt þó að eiga þessar gömlu í skúffunni til öryggis ef þær nýju skyldu vera til trafala.

Tell me I'm wrong. Tell me I'm right. Tell me there's nobody else in the world.

|

fimmtudagur, desember 15, 2005

Strawberry Born Lippy Balm

Ég hata undirhökuna mína. Hvert sem ég fer þá eltir hún mig. Það gleður mig samt svo mikið að hafa kynnst manneskju einni sem finnst gaman að klappa henni. Ég er ekki frá því að ég sé uppáhalds undirhakan hennar. *Undirhökuglott*

Fyndið hvað margar minningar fylgja með ilmum. Til að skýra mál mitt betur... Um daginn fann ég gamlan Body-Shop varasalva með jarðaberjabragði og mér varð strax hugsað til skólaferðarinnar á Reykjum í 7. bekk. Dæmi 2: Ég keypti Trevor Sorbie sjampó sem ég hef ekki notað í dálítinn tíma, fékk flashback aftur til sumarsins. Svona flashback þykir mér mjög svo skemmtileg.

Ég elska góðar lyktir. Ekki bara góða strákalykt, ilmvatnslykt, sjampó- eða sápulykt heldur líka lyktin af bókum, helst gömlum bókum. Lyktin af nýþvegnum sængurfötum. Lyktin af rjúpunum á aðfangadag. Lyktin af hestum. Lyktin af ungabörnum. Lyktin af kaffi (sérstaklega kaffibrennslulyktin). Útilykt.

Svo finnst mér baldursbrá fallegasta blómið. Veit ekki hvaðan þetta kom en fann mikla þörf til að láta þetta frá mér.

|

þriðjudagur, desember 13, 2005

Goi

Ég sofnaði kl. 21 í gærkvöldi, aldrei þessu vant. Vaknaði um miðnætti við það að ungarnir voru byrjaðir að tísta í gegnum eggin. Sofnaði ekki næsta klukkutímann og las því í Of M&M (hah sniðugt). Kl. 06:30 í morgun vaknaði ég svo við það að Mjallhvít (kvenkyns páfagaukurinn minn) var að hreyfa sig um eins og óður í fuglakofanum. Nokkru seinna treður Gosi sér inn til hennar og eggjanna. Þá heyri ég óvenju mikið ungatíst. Ég kíkka inní kofann og sé ég ekki þennan litla, bleika, krúttlega unga. Ég gladdist mikið við þetta og arkaði út í myrkrið með bros á vör...þegar ég kom svo heim úr skólanum var annað egg búið að klekjast og annar lítill trítill bættist við.

Mér til mikillar furðu komst ég að því að ef maður situr í hljóða horninu á bókasafninu í skólanum þá getur maður heyrt öll hljóð sem berast að öllum líkindum frá stelpusalerninu. Strákasalernið er jú fjær. En allavega...þarna sat ég á bókasafninu og var á fullu að læra þegar skyndilega heyri ég piss falla niður í klósettskálina með látum. Seinna kom hljóðið í klósettrúllunni snúast(einhver að búa sig undir skeiningu) og þar næst var sturtað niður. Þetta fannst mér óskup óhuggnalegt.

Erla og ég erum komnar með skotheltasta planið fyrir næstkomandi laugardagskvöld. Ég ætla ekki að segja hvernig planið er en vísbendingar get ég gefið: "Bag Netto" og "Stik mig en ** eller slå jeg flik flak, stik mig en ** eller slå jeg flik flak."

hmsm

|

sunnudagur, desember 11, 2005

Rautt rautt vín

Helgin fór í tómt rugl. Ég gerði ekki nærri því allt sem ég hafði áætlað. Próf á morgun úr Ein Mann Zuviel. Mér er svo óglatt að ég get ekki lesið eitt né neitt. Þessi pest ákvað að teygja sig lengra yfir á sunnudag sem er hugsanlega svartasti punkturinn í okkar tilveru. Ég missti af því eina sem gerir þennan dag góðan (Cheers) sökum þess að ég lá uppí vatnsrúminu máttlaus með svima og æluna í kokinu. Held ég leggist bara aftur upp í rúm og bíð uns þessi dagur er farinn með norðanvindinum.

*Gubb*

|

föstudagur, desember 09, 2005

Veikindi

Ef það er eitthvað sem ég þoli ekki þá er það að vera veikur þegar maður þarf mörgu að sinna. Missti af æfingu, herbergisþrifum, lærdómi, ágætu kvöldi og rauðvínslegnu lambalæri með sveppasósu, maís, rifsberjahlaupi og sykruðum kartöflum. Í staðinn fyrir þessa misskemmtilega hluti þurfti ég að liggja uppí rúmi með hausverk, magaverk, beinverki og hita. Er reyndar búin að vera að horfa á Scrubs á milli þess sem ég svaf...það var ágætt.

Leiðinlegt þykir mér að það ríkir ekki lengur sú hefð í þessari fjölskyldu að þegar einhver er veikur þá fer mamma á videoleigu og leigir fyrir mann það sem manni langar að sjá. Mig langar mjög mikið að horfa á The Hitchhiker's Guide To The Galaxy og ég bað mömmu um að skutlast á leiguna fyrir mig...hún kemur inn í herbergið mitt með allavega fimm spólur: "Geturu ekki bara horft á eitthvað af þessum." Ég skoðaði þessar spólur og þetta var versta úrval af B-myndum. Ég harðneitaði og sagðist geta farið bara sjálf á leiguna. (Ég nenni samt ekki að fara og get það ekki...þetta var meira svona "Ég fer þá bara sjálf!" þannig að hún fær samviskubit og fer á videoleiguna fyrir mig. Það virkaði ekki.)

Annamikill dagur framundan. Eins gott að næsti dagur taki á móti mér með frískleika.

|

fimmtudagur, desember 08, 2005

Úrslit

Þá er tími til kominn að tilkynna úrslit kappátsins. Eins og áður var nefnt voru keppendur að þessu sinni: Heiða Björg (ég) og Katrín Magnúsdóttir. Dómari og ritari var: Erla Karlsdóttir en hún sá um að fylgjast strangt með að enginn brögð spiluðust inní þessa heiðarlega keppni og punktaði niður allt sem var sagt og gert.

13:24 - Át hófst. Katrín: Líter af jarðarberjaís. Heiða: Líter af hvítum.
13:30 - "Mig langar að æla, ðöö..." (Katrín)
"Mér líður bara vel, nýt íssins mjög" (Heiða, metingur í gangi)
...Ísinn minnkaði fljótt og við vorum farnar að gruna
jafntefli en einn keppandinn var
nokkrum munnbitum á undan hinum...
13:56 - Heiða torgaði heilum lítra og því stóð
hún uppi sem sigurvegari.
13:58 - "Ég mana þig til að draga mig í land." (Katrín)
"I double dare you." (Erla)
...Heiða sýndi engan gunguskap heldur kláraði hún
væminn jarðarberjaísinn hennar Katrínar. (Kannski 4 munnbitar)
14:03 - "Sjitt...mig langar að gubba." (Heiða)

Aukaverkanir þessarar keppni:
Ógleði, brainfreeze, hausverkur, dofi í tungu.

Stoltar erum við þó að hafa torgað heilum tveimur lítrum á um það bil hálftíma og ég segi nú bara...geri aðrir betur.
Katrín var erfiður og þrjóskur andstæðingur. Keppnisandinn skein í augum hennar. Á tímabili bjóst ég við að ég myndi tapa fyrir henni eða að þetta myndi enda með jafntefli...enda var munurinn sáralítill. En svo fór sem fór og allir eru glaðir og saddir.

|

Veðbanki

Vilhelm kom með þá bráðskemmtilegu hugmynd að hægt væri að leggja veðmál á keppendur þessarar keppni. Ekki ætlast ég til að fólk veðji uppá peninga heldur eitthvað sem allir hafa efni á, orð. Keppnin fer fram eftir u.þ.b. eina og hálfa kennslustund og þið lesendur hafið frest þar til í kvöld til að taka þátt í þessu veðmáli en þá mun ég tilkynna úrslitin. Þegar þið hafið gert upp huga ykkar, skiljið þá eftir athugasemd hérna í athugasemdarboxinu. Ég hvet sem flesta til að leggja veð á þennan leik og þið sem lesið bloggið mitt en guggnið á því að kommenta, endilega látið í ykkur heyra.

Ég vil leggja mitt veð á hana Katrínu.

|

miðvikudagur, desember 07, 2005

Brynja

Það styttist í að stóra stundin renni upp. Dagsetningin er komin á hreint. Næstkomandi föstudag - níunda desember, klukkan fimmtánhundruð. Keppendur og dómararar bíða spenntir á brún sæta sinna.

Þetta verður allra fyrsta keppni í þessari grein svo ég viti af og því verður þetta æsispennandi leikur. Keppendur að þessu sinni eru ég sjálf (Heiða Björg) og Katrín Magnúsdóttir. Dómarar verða Erla Karlsdóttir og Védís Eva.

Leikreglur:
1) Hver keppandi fær eitt líterbox á mann. Sá sem borðar mest úr sínu ísboxi ber sigur úr býtum.
2) Það verður engin tímataka.
3) Keppandi má ekki taka boxið með sér heim, frysta ísinn og klára hann seinna.
4) Ef keppandi skyldi lenda í því óhappi að gubba verður hann dæmdur úr leik. Það sem kemur upp fer ekki niður aftur.
5) Þetta er einstaklingskeppni, keppandi má eigi fá hjálp frá öðrum.

Let the games begin.

|

þriðjudagur, desember 06, 2005

Décembre six

Ég get ekki annað en andvarpað ánægjuhljóðum. Mikla stressið sem er búið að hrjá mig og fleiri síðastliðnu daga, er nú liðið hjá. Ég setti mér það markmið að vera sofnuð fyrir ellefu í kvöld, bæta upp tapaðan svefn. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig það fer. Þetta kvöld verður rólegheitin ein og ég ætla að sitja í þessum stól í mestu makindum þar til nóttin brestur á.

Ég er komin með nokkuð þéttan sjónvarpslista fyrir jólafríið svo og aðrar dauðar stundir.
-Scrubs, heila klabbið
-Coupling, heila klabbið
-Lost, heila klabbið sem komið er
-Starship Troopers (aftur)
-Pulp Fiction
-Braveheart (aftur)
-Back To The Future (aftur)
-Meet The Feebles
-Amélie
-Lord Of The Rings, heila klabbið (aftur)
-Garden State
-The Hitchhicker's Guide To The Galaxy (aftur)
-Life of Brian
-King Kong (14. des)
-Christmas Vacation (aftur. Möst-mynd í kringum jólatíðina)

Næst á dagskrá: Verðskuldaður lúr.

Ömurleg færsla...enn og aftur.

|

föstudagur, desember 02, 2005

Årsfesten

Snilld. Maður er nýkominn af ógleymanlegum Sigur Rós tónleikum og við tekur niðurtalning á næstu tónleika. Eftirvæntingin er yfirþyrmandi.

Árshátíðin er þá liðin hjá og má með sönnu segja að þetta var vel heppnuð og skemmtileg hátíð. Fólk dansaði ýmist við Pál Óskar og Miljónamæringana eða harmonikkutóna á efri hæðinni þar sem gömlu dansarnir ríktu. Persónulega þótti mér gömlu dansarnir mun skemmtilegri og þó voru fyrstu mínúturnar á dansgólfinu niðri mjög skemmtilegar, nokkur góð dansspor þar. Á efri hæðinni voru ýmsir dansar, þar af var valsinn vinsælastur...enda laufléttur. Piltarnir fóru í hring og stelpurnar stilltu sér upp í annan hring í kringum þá. Tónlistin spilaði og hvor/hver/sitthvor? hringurinn fór sína leið. Þegar tónlistin stoppaði átti maður að dansa við þann sem á móti manni var. Herramennskan var í fyrirrúmi þar sem piltarnir hneigðu sig áður en dansinn hófst. Að sjálfsögðu gerðu stúlkurnar slíkt hið sama. Stemmingin á efri hæðinni var mikil en þegar lengra var á liðið voru flestar stelpur trítlandi á tám með háhælaða skó í hendi.
Kvöldið var allt í allt mjög vel heppnað. Góður matur, skemmtilegt fólk, góðir dansarar og góðar dansdýfur. Allir gullfallegir í sínu fínasta pússi. Gott kvöld.

Framundan er brjáluð lærdómshelgi...ég hlakka ekki til. Vinna annað kvöld- gott stöff þar sem ég er mjög stutt á peningana.

Árshátíðarmyndir, Randersmyndir og skautatjarnarmyndir...allt væntanlegt.

|