föstudagur, febrúar 20, 2009

Vigna Vecchia

Í gær fórum ég, Lára og Oratio (krúttlegi gamli kennarinn sem talar bara ítölsku) í Chianti héraðið. Við fórum upp í fjöllin og leiðin þangað er ógeðsleg. Vegurinn er einungis hægrivinstrihægrivinstri-beygjur. Ég er vanalega ekki bílveik en þarna, á tímabili hélt ég að ég myndi gubba. Eftir hálftíma akstur komum við í lítinn bæ sem heitir Radda. Þetta er ponkulítill, miðaldra bær sem er víst voðalega vinsæll á sumrin. Þar löbbuðum við einn hring með Oratio og spjölluðum handahreyfing/ítölsku.

Eftir það fórum við svo í Vigna Vecchia sem er sumsé vínverksmiðjan í héraðinu. Þar tók á móti okkur kona að nafnið Jessica og fór með okkur í tour um smiðjuna. Hún talaði hratt og var krúttleg. Ég hélt hún væri lesbía en svo sagði Lára að hún væri gift. Ég held líka að Erica (vonda konan í afgreiðslunni í skólanum) sé lesbía. En allavega, Jessica labbaði með okkur og sagði okkur hvernig allt virkar og þetta var allt saman mjög áhugavert.
Svo fórum við inn í litla búð eða eitthvað sem var í verksmiðjunni þar sem var búið að leggja á borð vínglös, proscuitto (skinku, alveg mega góð sjitt), salami, og fræga toscana paté-ið. Svo voru ólífur, brauð, geðveikt góður ostur, marmelaði og eitthvað meira gums.
Svo voru vínglös og að sjálfsögðu vín. Ég ætla nú ekki að koma með nákvæmlega lýsingu á hverju víni, ég geymi þá sögu fyrir pabba, en við fengum að prófa hvítvín (Titanum), rauðvín (Chianti Classico) og svo annað rauðvín sem var suddalega gott og einmitt uppáhalds vín Jessicu (Canvalle 2003) sem er sumsé 50% Giovanese og 50% Cabernet Sauvignon. Ég keypti eina slíka flösku handa mio babbo og hún verður geymd fyrir sérstakt tilefni. Já. Svo fengum við þarna inná milli að prófa rósavínið og það var bara ágætt.
Síðasta smakkið var sætt vín, man ekki nafnið á því. Við dýfðum biscotti í vínið, sem er rosalega vinsælt, og jöpluðum á því. Þetta minnti mig eiginlega bara á konfekt með koníak í. Ég var allavega ekki að fíla vínið persay en það var gott svona með dýfingu já. Ég og Lára ákváðum að kaupa sitthvora Canvalle flöskuna til að taka með heim, góð kaup þar á ferð. Svo var Jessica svo sæt að gefa mér Chianti vínupptakara. Við sögðum Oratio að þetta væri hápunktur ferðarinnar og þökkuðum honum kærlega fyrir.

Svo ótrúlega saddar og sáttar keyrðum við tilbaka og mér varð óglatt á leiðinni, vei. Svo komum við heim og ég fékk einhvers konar skyndiveiki. Varð óglatt, illt í hausnum og öxlinni og fór því bara að sofa um níuleytið. Svaf góða 11 tíma og var bara mjög hress í morgunsárið.

Skóladagurinn í dag var síðan svona rosalega skemmtilegur. Við fengum prófið okkar tilbaka (við tókum sumsé smá próf í gær.) Ég fékk einkunnina 9/10 sem hlýtur að þýða 9 og bekkurinn (við þrjár) stóðum okkur víst bara rosalega vel. Um hádegisbil fékk ég svo rosalegan hláturskrampa í tíma. Þá vorum við í einhverjum leik og upp kom nafnorðið "erbe" en það þýðir gras. Francesca sagði að þetta gæti þýtt gras as in marijuana. Ivette er alltaf að segja sögur í tíma, sumar mjög opinskáar eins og hve mikið hún elskar karlmenn og svo nefnir hún manninn sinn eiginlega aldrei hah...allavega, Ivette fór þá að segja enn eina söguna á spænsk/ítölsku og mér fannst hún vera að tala um að hún hefði eitt sinn verið að reykja marijuana og eitthvað um "production" og ég leit á Láru og svo Daniele kennarann og hann var með svip og Lára var með svip og ég bara sprakk úr hlátri. Ég hló svo mikið að ég fór að gráta, og Francesca fór meira að segja að gráta með mér, sagði mér að hætta að gráta. En það bara losnaði eitthvað, svei mér þá og ég hélt bara áfram að hlæja og hlæja. Ég hló meira að segja pínu afahlátri held ég.

Eftir skólann borðuðum ég og Lára hjá Janni (veitingastaðnum niðri) því við vorum svo ógeðslega svangar og gáfum kúk í pening og hollustu. Eftirá fórum við í skólann að horfa á bíómynd, Bianco e Nero. Það var ein ekkert sérstaklega skemmtileg ítölsk B-mynd. Við keyptum svo lestarmiða til Pisa, fórum í búðina og komum heim.

Ég er farin að hafa miklar áhyggjur af peningum og hugsa við hvern einasta hlut sem ég kaupi hvort ég ætti ekki bara að sleppa honum. Eins og í búðinni í dag. Ég borgaði 17 evrur fyrir bara ekki neitt! Keypti mér eina kók, einn kexpakka, ost, skinku, brauð, jógúrt, banana, appelsínu og eitthvað smotterí til að eiga heima að borða og þetta kostaði mig 17 evrur. Pisaferðin kostar mig 15 evrur, vínferðin kostaði mig 25 evrur...og svona get ég haldið áfram. Þetta er svo ótrúlega fljótt að safnast saman. Ég ætlaði svo að kaupa mér götuskó hérna úti en ég bara tími því ekki. Mig langar að eiga einhvern smá pening eftir þegar ég kem heim. Helvítis króna, viltu gjöra svo vel að styrkjast.

Í kvöld er frumsýning á Vínlandi í Freyvangsleikhúsinu. Ég get ekki lýst því hversu svekkt ég er að missa af allra fyrstu frumsýningu bróður míns, en ég hugsa bara að sýningin sem ég mun fara á, verði miklu betri. Æjjh.
Við förum ekki til Rómar á sunnudaginn því lestargaurarnir eru í verkfalli. Jújú, mikið rétt. Þannig að ég held að málið sé að fara á Las Vegas á morgun, detta í það og jafnvel finna eitthvað almennilegt djamm.

Ég segi þetta gott í bili. Sakna ykkar sem mér þykir vænt um og svona.

Ciao!

|

laugardagur, febrúar 14, 2009

Be my valenpoop

Hæ kæra dagbók.

Það sem á daga mína hefur drifið síðan ég bloggaði síðast ekki rosalega mikið. Skólinn er semsagt mjög skemmtilegur, þótt maður sé stundum þreyttur. Francesca skrifar nafn mitt alltaf "Haiða" og ber það líka fram "Hæða". Ég vil ekki vera að leiðrétta hana því hún er jú svo mikil dúlla. Verst bara að glósurnar hennar eru ekki alveg upp á milljón, hún er engin Anna Eyfjörð eða Magga í MA, onei. En eins og Erla Karls sagði, að þá var þetta svona hjá Barce-píunum líka...óskipulagðar glósur og eiginlega engin röð né regla á þeim. En ég og Lára tökum þessu bara létt og brosum til Francescu því hún jú dúllía. Greyið Daniele, hinn kennarinn okkar, þarf að þola áreiti frá Ivette en hún er dugleg við að daðra við hann.
Hún er semsagt gift en samt sem áður getur hún ekki hætt að tala um i ragazzi italiano (ítalska stráka), kynlíf o.s.frv. Ég held í rauninni að það sé það eina sem hún hugsar um hérna. Hún er samt dúlla.

Það er nóg af búðum hérna í San Giovanni en þær eru allar rosalega dýrar, svo við erum ekki búnar að versla mikið hérna nema kannski sokkabuxur og mat. Fyndið samt hvað allir eru eitthvað vel klæddir hérna. Ég ákvað einn daginn að fara bara út í íþróttabuxunum mínum, lopapeysunni, 66°norður húfunni og kuldaskónum. Svo var Lára með smaladrengjahúfuna sína og það var ekkert lítið starað á okkur. Ég tók húfuna niður og hélt bara á henni það sem eftir var.

Ég þoli ekki hvað það er léleg kynding hérna í íbúðinni. Við erum eiginlega alltaf í ullarsokkum og þegar við förum í tíma er alltaf skítkalt þar. Við erum náttúrlega svo góðu vanar þarna heima á Íslandinu og því er það mikil viðbrigði að vera aldrei á bol eða hlírarbol hérna inni. Við erum ekki búnar að vera duglegar að elda, enda er eldunaraðstaðan ekki sú besta.

Við fórum í Firenze (Flórens) á fimmtudaginn með Oratio (Cane) sem er gamall maður, pabbi Önnu Paolu. Það var ógeðslega kalt og við skoðuðum kirkjur. Ég er ekki mikill áhugamaður um kirkjur en þetta er mikil ástríða fyrir gamla manninum, svo hann stoppaði oft og talaði lengi og svona gaman. Æji hann er nú samt krúttlegur. Það var enginn tími fyrir búðir og við ákváðum því að fara aftur í Firenze semsagt í dag (laugardag). Það var fínt, það er samt dýrt hérna finnst mér/okkur þannig að við ætlum bara að taka smá peningapásu enda náðum við að versla okkur nokkrar flíkur í dag.

Já á föstudaginn duttum við alveg semi í það. Byrjuðum bara að drekka hérna í íbúðinni og spjalla við Ivette og Önju, máluðum okkur meira að segja og ég fór í háa hæla. Við ákváðum svo að kíkka í aðalgötuna og sjá hvort það væri eitthvað um að vera. Við hittum einhverja ómyndarlega, fulla Ítala á aldur við okkur og þeir bentu okkur á Italian Pub. Við fórum þangað og þar var...enginn. Við settumst niður og fengum okkur eitthvað sull en svo kom Argentísk stelpa til okkar og spjallaði. Við semsagt komumst að því að það er ekkert djamm í San Giovanni Valdarni. Ef við viljum djamma þurfum við að taka lestina í Figline eða nærliggjandi bæ. Sem er hörku gay því lestin hættir að ganga um eitt held ég.

Það sem mér finnst skemmtilegast við svona ferðir eru misskilningarnir. (Ég misskil ýmislegt, oft, oft og mörgum sinnum. Eða held bara að hlutirnir séu öðruvísi en þeir eru en þeir eru það ekki). Svona eins og þetta... (Erla, þú átt eftir að hafa gaman af)
Ég var nýbúin að appelsínur sem reyndust svo vera blóðappelsínur. Mig langaði ekki í blóðappelsínu svo Lára borðaði þær fyrir mig. Svo var hún með þurrkaðar sveskjur og hindber. Þá sagði ég "Lára, þú ert svo mikið fyrir svona erótíska ávexti." Lára fer að skellihlæja og ég "Ha, já? Segir maður ekki erotic fruits eða eitthvað?" Lára kafnar úr hlátri og leiðréttir mig svo.
Það er víst exotic fruits en ekki erotic eins og ég vildi meina.

Það er rosalega mikið af ástföngnum pörum hérna og ég sakna Hermanns alveg svakalega mikið. Það verður svo gott og svo ótrúlega gaman að koma heim. Ekki að mér finnist leiðinlegt hérna, það er svaka gaman að læra og svona en ég er búin með Hemmalyktina sem var á koddaverinu og er farin að sakna hennar. Svo langar mig svo mikið í mömmuogpabbamat og knúsa þau fast og horfa á vídjó og fara í sund.

En já. Ég nenni ekki að fara yfir bloggið (uppá stafsetningavillur) en gaman ef einhver nennir að lesa þetta allt saman.

Ciaaooo!

P.s. Kann að telja uppá þúsundogeitthvað á ítölsku. Vei!

|

mánudagur, febrúar 09, 2009

Mi chiamo Heiða

Þá eru ég og Lára komnar í appartamento "il pozzo", sem er frekar shabby íbúð verð ég að segja. Þetta er jú fornagömul bygging sem við erum í en þrifin hefðu alveg mátt vera örlítið betri...við fundum notaðan túrtappa í skúffunni á skápnum okkar haha. Oj. En við erum búnar að gera herbergið okkar ögn meira kósí, svo ætlum við að kaupa kerti og helling af víni og þá ætti þetta að vera orðið fínt. Það er líka bara svona fúkkalykt hérna, svona lykt eins og af gömlum blautum kjéllíngafötum sem hafa setið inní skáp í 20 ár. En þá kaupum við bara ilmkerti, jámm.

Mikið rosalega var þetta langt ferðalag hjá okkur í gær. Og mikið rosalega var ógeðslega heitt og erfitt að anda í flugvélunum, bjakk. Mér leiðist ferðalög, alveg ótrúlega mikið. En það er samt gaman að koma á áfangastaðinn þið vitið. En flugvélar og lestir og bílar...oj við því öllu.

Fyrsti skóladagurinn var í dag og við erum með skemmtilegan kennara, Francesca. Hún er með miklar, svartar krullur og bara krúttuleg og skondin. Eins og er þá erum við bara þrír nemendur en ég ætla að vona að eitthvað bætist við hópinn. Febrúar er ekki beint eftirsóttasti mánuðurinn til að koma hingað að læra. En ég meina við fáum að upplifa eitthvað af Karnival og svona, jibbíjeij! Á eftir förum við svo í göngutúr um bæinn og kynnt verður fyrir okkur búðirnar og hvar er hægt að versla, éta, drekka og svo framvegis. Síðan í kvöld förum við út að borða með einum kennaranum og kynnumst þá eitthvað af hinum nemendunum. Með okkur í íbúð er stelpa frá Póllandi og önnur frá Venezuela. Stelpan frá Venezuela er ekki góð í ensku og þar af leiðandi er mikið af svona þögnum og/eða misskilningum. En það lagast þegar ég og Lára erum orðnar góðar í ítölsku. Pólska pían er klárari í ensku og okkur líst ágætlega á hana held ég. Þær eru samt báðar 27 ára, ætli þær nenni að djamma með okkur og vera hressar?

Já ég ætla að segja þetta gott í bili. Ég er með Skype, samt er það með einhver leiðindi núna. En nafnið mitt er "Heibbba". Athugið, með þremur bjéum.

Arrivederci!

|